Dysjar hinna dæmdu — um aftökur á Íslandi á árnýöld

 

Markmiðið með rannsókninni er að leita þeirra einstaklinga sem teknir voru af lífi hérlendis frá 1550–1830. Nöfn þeirra, brot og dómar verða skráðir en einnig bakgrunnur þeirra kannaður með tilliti til stöðu, fjölskylduhags og búsetu. Þá er markmiðið að skrá þá staði þar sem aftökurnar fóru fram og leita dysja og mannvistarleifa innan þeirra. Stefnt er að því að grafa upp sumar dysjanna svo varpa megi frekara ljósi á heilsufar líflátinna, klæðnað þeirra, grafarumbúnað og aðferðir við aftöku. Auk þessa verða aftökurnar settar í sögulegt og félagslegt samhengi með tilliti til veðurfars og stjórnarhátta. Athugað verður hvort brotum hafi fjölgað í hallærum og sömuleiðis hvort greina megi breytingar í viðhorfi til þeirra á tímabilinu. Loks verður stétt böðla könnuð. Rannsóknin mun byggja á kenningum um efnismenningu og undirsáta (e. subaltern) en einnig póst-marxisma og femínisma. Hugmyndafræðileg mótun stétta og stéttskiptingar, kynbundið misrétti og möguleikar undirsáta til að hafa áhrif á ríkjandi viðmið verða þannig í forgrunni.

Rannsóknin hófst árið 2018 og er hún rekin fyrir fjárframlög úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, Nýsköpunarsjóði námsmanna, Fornminjasjóði og samstarfsaðilum.

Starfsmenn

Steinunn Kristjánsdóttir

Prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands og stjórnandi verkefnis

Sigrún Hannesdóttir

Meistaranemi í fornleifafræði við Háskólann í Oxford

Ómar Valur Jónasson

Meistaranemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Snædís Sunna Thorlacius

BA nemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Magnea Dís Birgisdóttir

BA nemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Joe Wallace Walser III

Mannabeinafræðingur á Þjóðminjasafni Íslands, doktorsnemi í fornleifafræði við Háskóla Íslands

Annað